Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 465  —  270. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur, sem lagður er á samkvæmt lögunum, í sérstakan sjóð sem skal varið til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. og hefur sjóður þessi nýst afar vel til endurbóta á slíkum húsakosti bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni. Samkvæmt frumvarpinu verður þessi lögbundni tekjustofn skertur á næsta ári um 146 millj. kr. og sú upphæð látin renna í ríkissjóð í stað fyrrgreinds endurbótasjóðs.
    Mat minni hlutans er að rökin sem notuð eru til að styðja skerðingu þessa séu haldlítil, þar sem ekki er gert ráð fyrir lækkun skattheimtunnar heldur er upphæðin nýtt til almennra útgjalda úr ríkissjóði í stað þess að ganga til verkefna endurbótasjóðsins. Þar að auki er ekki um slíka upphæð að ræða að hún sé þess megnug að slá á þensluna í samfélaginu svo nokkru nemi. Hafa ber í huga að gnægð verkefna er á þessu sviði og sé það vilji stjórnvalda að slá á þenslu á höfuðborgarsvæðinu hefði vel mátt hugsa sér að setja fjármagn þetta til endurbóta menningarhúsnæðis á landsbyggðinni.

Alþingi, 16. des. 1999.



Kolbrún Halldórsdóttir,


frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Svanfríður Jónasdóttir.